Réttarvitund almennings

Með réttarvitund almennings er átt við ríkjandi viðhorf þorra manna í samfélaginu á hverjum tíma um það hvernig gildandi réttur er eða eigi að vera í ákveðnu tilviki eða tilvikum. Um er að ræða hugmyndir hvers einstaklings um lög og réttlæti. Ef réttarvitund helst stöðug og henni er fylgt, getur hún orðið að venju. Sumir halda því fram að sú niðurstaða sé eðlilegust sem er í samræmi við réttarvitund almennings á hverjum tíma.


Fræðimenn eru ekki á sama máli um hvort réttarvitund almennings teljist sem réttarheimild. Sumir fræðimenn viðurkenna réttarvitund almennings ekki sem sjálfstæða réttarheimild þar sem það skorti viðhlítandi rök til að veita henni slíkt gildi eða að um sé að ræða óáþreifanlegt og óákveðið viðmið og þar af leiðandi sé ekki hægt að nota það við refsiákvörðun. Sumir fræðimenn telja að regluverk þjóðfélagsins hafi mótast af réttarvitund almennings og fornri lagahefð og að til staðar séu viðmið sem ekki hafa mótast til hlítar eins og meginreglur laga, eðli máls og almenn réttarvitund.


Ísland er réttarríki. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður gild refsiregla að endurspegla lýðræðislega ákvarðanatöku kjörinna fulltrúa á Alþingi. Hlutverk löggjafans er að sjá til þess að vilji þjóðarinnar endurspeglist í refsilöggjöfinni. Refsiákvæði sem lögfest eru verða að vera í samræmi við kröfur stjórnarskrár sem og almenn siðferðis- og sanngirnissjónarmið. Því verður að telja rétt og eðlilegt að réttarvitund almennings kunni að hafa áhrif við setningu refsiákvæða.


Meginhlutverk dómstóla er að ákvarða umfang og eðli refsinga við refsiverðri háttsemi. Þau sjónarmið sem dómstólar hafa í huga við ákvörðun refsinga verða ekki tæmandi talin en í 61. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið svo að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum. Löggjafinn hér á landi hefur veitt dómstólum nokkuð rúmt svigrúm til að ákvarða refsingu.


Viðfangsefni lögfræðinnar verða sífellt flóknari og erfiðari en samt sem áður verða dómstólar að komast að niðurstöðu. Ekki er hægt að vísa máli frá sé ekki til lagaregla um úrlausnarefnið. Dómara ber að velja þá leið sem hann telur vera rétta út frá lögfræðilegu sjónarmiði. Hlutverk dómara er að leiða fram rétta niðurstöðu.


Dómarar eru mannlegir og hluti af samfélaginu og því kann að vera að þeir mótist af þjóðfélagsumræðunni. Dómarar fylgjast með fjölmiðlum og vita hvað er í gangi hverju sinni í samfélaginu. Ljóst er þó að dómarar geta ekki tekið mið af tilfinningaþrungnum og oft á tíðum samhengislausum röddum í samfélaginu.


Fjölmiðlar fjalla eðli málsins samkvæmt um málefni líðandi stundar. Sumir refsiverðir verknaðir fá meiri umfjöllun hjá almenningi en önnur málefni. Mikið var fjallað um efnahagskreppuna á Íslandi sem skall á haustið 2008. Jafnvel hafa verið kenningar á lofti um að réttarvitund almennings hafi haft áhrif á ákvarðanir dómstóla í svokölluðum hrunmálum, þ.e. í þeim málum þar sem sakfellt var eins og í Hæstaréttardómum í málum Exista, Al-Thani og Ímon.


Jafnframt hafa fíkniefnamál fengið mikla athygli. Lengi vel hafa dómstólar verið gagnrýndir af almenningi fyrir vægar refsingar í fíkniefnabrotamálum en refsingar í þeim brotaflokki hafa þyngst verulega á síðustu árum. Þá hafa umræður í þjóðfélaginu verið á þá leið að fólki þyki refsingar vera orðnar of þungar í fíkniefnamálum, svo sem í þeim tilvikum þar sem um er að ræða svokölluð burðardýr.


Síðustu ár hafa verið háværar raddir í þjóðfélaginu um að refsingar fyrir kynferðisbrot séu of vægar. Því er haldið fram að refsingar séu ekki í samræmi við réttarvitund almennings, sem krefjast að refsingar séu þyngdar fyrir slík brot. Viðurlögin þykja ekki réttlát og hefur umræðan verið á þá leið að breyta verði almennum hegningarlögum. Fjölmiðlar hafa farið mikinn eftir að dómar í kynferðisbrotamálum hafa fallið.


Hafa nokkrar byltingar átt sér stað á síðustu árum vegna kynferðisbrota, svo sem Ekki mínir #almannahagsmunir þar sem verið var að mótmæla aðgerðarleysi löreglunnar í kynferðisbrotamálum í kjölfar Hlíðarmálsins svokallaðs og svo #MeToo byltingarnar þar sem fjöldi þolenda hefur stigið fram undir nafni eða nafnlaust og sagt frá kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi.


Nú upp á síðkastið hafa fjölmiðlar og hlaðvörp fjallað um mál einstaklinga sem stigið hafa fram og sakað ákveðna aðila um að hafa brotið gegn sér kynferðislega og hafa þau mál jafnvel ekki verið kærð eða verið felld niður á rannsóknarstigi. Hefur það þróast þannig að slíkar ásakanir hafa haft afleiðingar fyrir viðkomandi sem sakaðir eru um ofbeldið. Kann þessi þróun að hafa orðið með tilkomu samfélagsmiðla nútímans þar sem fólk getur tjáð sig um sína upplifun á eigin samfélagsmiðlum.


Þá hefur lögregla lýst yfir áhyggjum af auknum vopnaburði í undirheimum og fólks almennt upp á síðkastið, sem hefur haft slæmar afleiðingar í för með sér. Kann það að vera vegna þess að skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi hefur farið vaxandi síðustu ár. Um er að ræða alvarlega ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi.


Það vakna upp ýmsar spurningar hvers vegna Íslendingar krefjast þyngri refsinga í hinum ýmsu brotaflokkum og hverju slík framkvæmd myndi skila. Telja má að þau sjónarmið er búa að baki þeirri skoðun almennings eigi margt sameiginlegt með þeim grundvallarsjónarmiðum sem færð hafa verið fram í aldanna rás um markmið og réttlætingu refsinga.


Í fyrsta lagi má nefna það sjónarmið að þyngri refsingar séu besta ráðið til að draga úr afbrotum. Rannsóknir fræðimanna hafa sýnt fram á að stórhertar refsingar hafi almennt ekki meira en tímabundin áhrif á tíðni afbrota.


Í öðru lagi má nefna það sjónarmið að með lengri fangelsisrefsingu sé brotamaðurinn gerður óskaðlegur fyrir samfélagið og möguleikar hans til brotastarfsemi í refsivist séu mjög takmarkaðir.


Í þriðja lagi er sjónarmið um betrun brotamannsins í fangelsi. Gengið er út frá því að löng refsivist muni hvort tveggja í senn fæla afbrotamanninn frá því að brjóta aftur af sér svo hann fari ekki aftur í fangelsi og að refsivistin verði honum tími til umhugsunar um nýtt líf eða endurskoðaða breytni.


Í fjórða lagi má draga þá ályktun að hefndarsjónarmið ráði þar miklu. Það er viðhorf almennings til einstakra brotaflokka með þeim hætti að þar birtast hefndarsjónarmiðin í sinni skýrustu mynd.


Í fimmta lagi má telja að kröfu almennings um þyngri refsingar megi rekja til aukinnar umfjöllunar fjölmiðla um sakamál. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur hefur m.a. varpað fram því sjónarmiði að auknar áhyggjur Íslendinga af afbrotum séu hugsanlega tilkomnar frá fjölmiðlum.


Aukinn áhugi fjölmiðla á afbrotum felst í frekari fréttaflutningi, sé það meginskýringin á auknum áhyggjum fólks, en ekki hinn félagslegi raunveruleiki afbrota í samfélaginu. Oft er þekking almennings á réttarvörslukerfinu ekki nægjanlega mikil, en hugmyndir almennings byggja oft á brotakenndum fréttaflutningi fjölmiðla, sem hafa almennt ekki tilhneigingu til að greina í heild, heldur einskorða umfjöllun sína við einstök og óvenjuleg sakamál, þar sem almenningur bregst oft við með þeim hætti að refsingar fyrir slík brot beri að þyngja sérstaklega.


Að lokum verður að hafa í huga að almenn réttarvitund er ekki alltaf byggð á staðreyndum eða þekkingu almennings á viðfangsefninu. Oft er um að ræða að almenningur kynni sér einungis málefni í fjölmiðlum, eins og sjá má á kommentakerfum. Þá tekur dómstóll götunnar við og deila má um ágæti þess.


Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður

Maður í jakkafötum og bindi situr við borð með fartölvu og bækur.
27. febrúar 2025
Þrátt fyrir mikla aukningu hérlendis á umferð og fjölgun ökutækja þá hefur umtalsverður árangur náðst í baráttunni gegn umferðarslysum á undanförnum árum. Árið 1907 voru lögboðnar umferðarreglur hér á landi að finna í lögum um vegi nr. 57/1907 og voru fyrstu bifreiðalögin í kjölfarið lögfest 7 árum síðar með lögum nr. 21/1914. Síðan þá hefur samfélagið tekið miklum breytingum og hafa farartæki, vegir og samgönguvenjur manna breyst verulega. Það var svo ekki fyrr en árið 1940 sem fyrstu umferðarlögin voru lögfest með lögum nr. 110/1940. Þegar litið er yfir þróun bifreiðalaga frá árinu 1914 og til ársins 2019 eða þegar núgildandi umferðarreglur voru lögfestar má sjá hvernig svokallaðar hátternisreglurnar hafa tekið breytingum samhliða breytingum samfélagsins. Í dæmaskyni má nefna að í 8 gr. umferðarlaga nr. 21/1914 var kveðið á um skyldu ökumanna til þess að gefa hljóðmerki þegar hætt var við árekstri. Segir þar m.a. að óheimilt sé fyrir ökumann að gefa hljóðmerki þegar ekið er framhjá hestum og skuli hestar fælast við hljóðmerki eða verða óróir skuli þegar í stað hætta að gefa hljóðmerkið. Þó að áðurnefnt ákvæði umferðarlaga sé ekki að finna í núgildandi umferðarlögum nr. 77/2019 þá eru líkt og áður lögfestar hátternisreglur sem eiga það sameiginlegt að stuðla að auknu umferðaröryggi. Óþarft er að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að reglur er varðar ökutæki og umferð séu skýrar svo að auðskiljanlegt sé fyrir hinn almenna borgara að átta sig á því hvaða háttsemi sé leyfileg í umferðinni enda stuðlar það að auknu umferðaröryggi. Við ættum öll að geta fallist á að það væri brot á umferðarlögunum ef einstaklingur sest drukkinn undir stýri og verður í kjölfarið valdur af umferðarslysi. Þá kæmi það okkur ekki á óvart ef viðkomandi yrði látin sæta ábyrgð. Hið sama má segja um þann sem verður valdur af umferðarslysi með samskonar ábyrgðarlausri og/eða refsiverðri háttsemi. En hvað með einstaklinga sem eru allsgáðir við akstur, keyra á löglegum hraða, eru með athyglina við aksturinn og haga honum að öllu leyti eftir aðstæðum, lögum og reglum. Verði þeir svo óheppnir að valda umferðarslysi sem í för með sér hefur líkamstjón eða manntjón, mega þeir vænta þess að þeir verði látnir sæta ábyrgð líkt og áðurnefndu ökumennirnir? Hér áður fyrr hefði svarið við þessari spurningu eflaust verið nei en ef nýlegir dómar eru hafðir til hliðsjónar má sjá hvernig búið er að móta gáleysismatið þannig að óverulegt gáleysi í umferðinni getur bakað mönnum refsingu. Að því er varðar manndráp af gáleysi í umferðinni virðist sem íslenskir dómstólar hafi hér áður fyrr verið vægari í að sakfella í slíkum málum en dómstólar í nágrannalöndum okkar. Þá ber dómaframkvæmdin með sér að stórfellt gáleysi hafi þurft til sakfellingar hins ákærða og má hið sama segja um sakfellingu fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi skv. 219. almennra hegningarlaga. Í dag er þó staðan önnur líkt og nýlegur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll fyrr á þessu ári ber með sér. Fyrir skömmu fékk ég inn á borð til mín mál einstaklings sem ákærður var fyrir hegningar- og umferðarlagabrot en viðkomandi hafði lent í umferðarslysi með þeim afleiðingum að ökumaður annarrar bifreiðar slasaðist töluvert. Viðkomandi hafði hvorki verið undir áhrifum áfengis né hugbreytandi efna, hann hafði ekið á löglegum hraða, var ekki í símanum við akstur og var ökutæki hans í fullkomnu lagi. Í raun kom ekkert fram í gögnum málsins né fyrir dómi að aksturslag viðkomandi hafi verið á einhvern hátt ábótavant. Samt sem áður var honum gefið að sök líkamsmeiðing af gáleysi og umferðarlagabrot. Að lokum var viðkomandi sakfelldur fyrir brotið skv. ákæru og er erfitt að sjá fyrir sér aðstæður þar sem hann hefði að getað komið í veg fyrir slysið. Í íslensku réttarfari er að finna mikilvæga meginreglu um sönnunarbyrði í sakamálum en meginreglan kveður á um að sönnunarbyrði fyrir sekt ákærða hvíli á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þannig verður ákærða ekki gert áfelli nema að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefið að sök, sbr. 109. gr. sömu laga. Allan vafa á svo að skýra ákærða í hag sbr. 2. mgr. 70. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 2. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Með vísan í ofangreint er engu líkara en að ákæruvaldið virðist ekki lengur þurfa að færa fullnægjandi sönnur fyrir því að hinn ákærði hafi með gáleysi brotið gegn almennum hegningarlögum heldur sé nægjanlegt til sakfellingar að brotið sé sannað, þ.e. að umferðarslys hafi orðið og í kjölfarið líkams- eða manntjón. Hið sama má segja um niðurstöðuna í máli strætisvagnabílstjórans í máli nr. S-3865/2023. Óhjákvæmilega situr eftir spurningin hvar dómstólar séu farnir að draga mörkin þegar um ræðir annars vegar óhappatilvik og hins vegar gáleysisbrot eða heyra óhappatilvik í umferðinni kannski sögunni til? Er það samfélagið sem við viljum búa í? Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður 
30. september 2024
Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2024 er viðurkenning sem Viðskiptablaðið og Keldan standa fyrir og veita fyrirtækjum sem sýnt hafa fram á öflugan og sterkan rekstur. Til að hljóta þennan heiður þurfa fyrirtæki m.a. að hafa skilað jákvæðri afkomu fyrir árin 2022 og 2023 og vera með eiginfjárhlutfall yfir 20% auk annarra þátta sem Viðskiptablaðið og Keldan meta sérstaklega. „Það er virkilega ánægjulegt að vera í hópi 2,3% fyrirtækja á landinu sem komast á þennan lista hjá Viðskiptablaðinu og Keldunni. Það er jafnvel enn meiri heiður að lítil lögmannsstofa eins og okkar skuli vera meðal fárra lögmannsstofa sem komast inn á listann og sú staðreynd að þær stofur sem eru með okkur á listanum eru stærstu lögmannsstofur landsins. Þetta er okkur á stofunni mikil hvatning til að halda áfram þeirri góðu vinnu sem við höfum lagt á okkur og gera enn betur í framtíðinni.“ - Sævar Þór Jónsson