VILTU VITA EITTHVAÐ MEIRA?

Pistlar & fróðleikur

30 Sep, 2024
Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri 2024 er viðurkenning sem Viðskiptablaðið og Keldan standa fyrir og veita fyrirtækjum sem sýnt hafa fram á öflugan og sterkan rekstur. Til að hljóta þennan heiður þurfa fyrirtæki m.a. að hafa skilað jákvæðri afkomu fyrir árin 2022 og 2023 og vera með eiginfjárhlutfall yfir 20% auk annarra þátta sem Viðskiptablaðið og Keldan meta sérstaklega. „Það er virkilega ánægjulegt að vera í hópi 2,3% fyrirtækja á landinu sem komast á þennan lista hjá Viðskiptablaðinu og Keldunni. Það er jafnvel enn meiri heiður að lítil lögmannsstofa eins og okkar skuli vera meðal fárra lögmannsstofa sem komast inn á listann og sú staðreynd að þær stofur sem eru með okkur á listanum eru stærstu lögmannsstofur landsins. Þetta er okkur á stofunni mikil hvatning til að halda áfram þeirri góðu vinnu sem við höfum lagt á okkur og gera enn betur í framtíðinni.“ - Sævar Þór Jónsson
26 Sep, 2024
Á síðustu vikum og mánuðum hafa kynferðisbrot og tjáningarfrelsið mikið verið í umræðunni. Hefur fjöldi kvenna stigið fram og greint frá brotum sem þær hafa orðið fyrir og þau brot sem mesta umfjöllun hafa fengið hafa meintir gerendur verið „stórir karlar í samfélaginu“ eða menn með völd. Það sem hefur einkennt umræðuna fyrir utan brotin sjálf er sú leið sem hefur verið farin til þess að greina frá meintum brotum en með tilkomu internetsins og þá ekki síst samfélagsmiðlum er nú mun auðveldara en áður að koma upplýsingum á framfæri. Við höfum séð það síðustu vikur að það hefur færst í aukana að greina frá meintum brotum á slíkum miðlum, allt í skjóli tjáningarfrelsisins sem er lögfest í 73. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Það sem jafnframt hefur vakið athygli er sú staðreynd að flest þeirra mála sem hafa verið í umræðunni hafa ekki verið kærð. Vaknar þá upp sú spurning hvers vegna brotin hafa ekki verið kærð til lögreglu þar sem á Íslandi er réttarríki og er það hlutverk dómstóla að dæma einstaklinga seka eða saklausa. Það er því miður sannleikurinn að lág tíðni tilkynntra kynferðisbrota endar með sakfellingu. Þá er einungis um að ræða þau brot sem eru yfir höfuð tilkynnt og eru ákærð en falla ekki niður við rannsókn málsins. Því að staðreyndin er sú að kynferðisbrotamál eru erfið í sönnun, enda oftar en ekki eru einungis um að ræða orð gegn orði og allan vafa um sekt sakbornings ber að túlka honum í hag. Er það meginsjónarmið í sakamálaréttarfari að framburður eins vitnis gegn neitun ákærða nægir ekki til sakfellingar og líkt og Stígamót hafi vakið athygli á síðustu daga þá er þolandi kynferðisbrots einungis vitni í sínu máli. Verður framburðurinn að eiga sér stoð í öðrum gögnum málsins en ekki er fast í hendi hvaða gögn nægi þar til. Sé litið til þeirra þungu sönnunarbyrði sem er í kynferðisbrotamálum þá kemur það lítið á óvart hversu mörg brot eru framin miðað við þau sem við sjáum á borði lögreglu og þess þá heldur hjá dómstólum landsins. Samkvæmt könnun frá árinu 2014 þar sem rætt var við 42.000 konur frá ESB löndunum, hafði þriðjungur þeirra orðið fyrir líkamlegu/kynferðislegu ofbeldi eftir 15 ára aldur. Niðurstöðurnar voru og eru sláandi og sýnir okkur að málafjöldi innan réttarvörslukerfisins endurspeglar engan veginn raunverulega stöðu kvenna. Sé litið til alls ofangreinds þá kemur það lítið á óvart að konur ákveði að fara þá leið að greina frá meintum brotum frekar opinberlega heldur en að kæra þau. Eflaust er það hluti af bataferli brotaþola að greina opinberlega frá málum og setja það í hendur samfélagsins að dæma gerendur. Það eru þó önnur úrræði til þess að styrkja bataferli brotaþola sem notast er við í löndum í kringum okkur og vert væri að skoða. Fyrst ber að nefna að brotaþoli verði aðili að máli og tryggja þar með að hann fái rödd í sínu máli. Annað úrræði er sáttamiðlun, en í sáttamiðlun hittast gerandi og brotaþoli ásamt hlutlausum sáttamiðlara. Sáttamiðlunin einblýnir þá fyrst og fremst á þarfir og hagsmuni brotaþola og að vera sem aðhlynning fyrir hann ásamt því að vera vettvangur fyrir brotaþola til að ræða við geranda og spyrja þeirra spurninga sem þeir þrá svör við. Talið er að sáttamiðlun geti veitt brotaþola ákveðin málalok og hjálpi til við að bæta tilfinningalega skaðann sem oftar en ekki er talinn hafa verri áhrif heldur en líkamlegur skaði. Sáttamiðlun fer þó aldrei fram nema báðir aðilar samþykki það. Af umræðunni síðustu vikur og mánuði er ljóst að breytinga sé þörf svo þolendur kynferðisofbeldis treysti sér til að leggja mál sín í hendur lögreglu, ákæruvaldsins og dómstóla. Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður
26 Sep, 2024
Með réttarvitund almennings er átt við ríkjandi viðhorf þorra manna í samfélaginu á hverjum tíma um það hvernig gildandi réttur er eða eigi að vera í ákveðnu tilviki eða tilvikum. Um er að ræða hugmyndir hvers einstaklings um lög og réttlæti. Ef réttarvitund helst stöðug og henni er fylgt, getur hún orðið að venju. Sumir halda því fram að sú niðurstaða sé eðlilegust sem er í samræmi við réttarvitund almennings á hverjum tíma. Fræðimenn eru ekki á sama máli um hvort réttarvitund almennings teljist sem réttarheimild. Sumir fræðimenn viðurkenna réttarvitund almennings ekki sem sjálfstæða réttarheimild þar sem það skorti viðhlítandi rök til að veita henni slíkt gildi eða að um sé að ræða óáþreifanlegt og óákveðið viðmið og þar af leiðandi sé ekki hægt að nota það við refsiákvörðun. Sumir fræðimenn telja að regluverk þjóðfélagsins hafi mótast af réttarvitund almennings og fornri lagahefð og að til staðar séu viðmið sem ekki hafa mótast til hlítar eins og meginreglur laga, eðli máls og almenn réttarvitund. Ísland er réttarríki. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verður gild refsiregla að endurspegla lýðræðislega ákvarðanatöku kjörinna fulltrúa á Alþingi. Hlutverk löggjafans er að sjá til þess að vilji þjóðarinnar endurspeglist í refsilöggjöfinni. Refsiákvæði sem lögfest eru verða að vera í samræmi við kröfur stjórnarskrár sem og almenn siðferðis- og sanngirnissjónarmið. Því verður að telja rétt og eðlilegt að réttarvitund almennings kunni að hafa áhrif við setningu refsiákvæða. Meginhlutverk dómstóla er að ákvarða umfang og eðli refsinga við refsiverðri háttsemi. Þau sjónarmið sem dómstólar hafa í huga við ákvörðun refsinga verða ekki tæmandi talin en í 61. gr. stjórnarskrárinnar er kveðið svo að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögum. Löggjafinn hér á landi hefur veitt dómstólum nokkuð rúmt svigrúm til að ákvarða refsingu. Viðfangsefni lögfræðinnar verða sífellt flóknari og erfiðari en samt sem áður verða dómstólar að komast að niðurstöðu. Ekki er hægt að vísa máli frá sé ekki til lagaregla um úrlausnarefnið. Dómara ber að velja þá leið sem hann telur vera rétta út frá lögfræðilegu sjónarmiði. Hlutverk dómara er að leiða fram rétta niðurstöðu. Dómarar eru mannlegir og hluti af samfélaginu og því kann að vera að þeir mótist af þjóðfélagsumræðunni. Dómarar fylgjast með fjölmiðlum og vita hvað er í gangi hverju sinni í samfélaginu. Ljóst er þó að dómarar geta ekki tekið mið af tilfinningaþrungnum og oft á tíðum samhengislausum röddum í samfélaginu. Fjölmiðlar fjalla eðli málsins samkvæmt um málefni líðandi stundar. Sumir refsiverðir verknaðir fá meiri umfjöllun hjá almenningi en önnur málefni. Mikið var fjallað um efnahagskreppuna á Íslandi sem skall á haustið 2008. Jafnvel hafa verið kenningar á lofti um að réttarvitund almennings hafi haft áhrif á ákvarðanir dómstóla í svokölluðum hrunmálum, þ.e. í þeim málum þar sem sakfellt var eins og í Hæstaréttardómum í málum Exista, Al-Thani og Ímon. Jafnframt hafa fíkniefnamál fengið mikla athygli. Lengi vel hafa dómstólar verið gagnrýndir af almenningi fyrir vægar refsingar í fíkniefnabrotamálum en refsingar í þeim brotaflokki hafa þyngst verulega á síðustu árum. Þá hafa umræður í þjóðfélaginu verið á þá leið að fólki þyki refsingar vera orðnar of þungar í fíkniefnamálum, svo sem í þeim tilvikum þar sem um er að ræða svokölluð burðardýr. Síðustu ár hafa verið háværar raddir í þjóðfélaginu um að refsingar fyrir kynferðisbrot séu of vægar. Því er haldið fram að refsingar séu ekki í samræmi við réttarvitund almennings, sem krefjast að refsingar séu þyngdar fyrir slík brot. Viðurlögin þykja ekki réttlát og hefur umræðan verið á þá leið að breyta verði almennum hegningarlögum. Fjölmiðlar hafa farið mikinn eftir að dómar í kynferðisbrotamálum hafa fallið. Hafa nokkrar byltingar átt sér stað á síðustu árum vegna kynferðisbrota, svo sem Ekki mínir #almannahagsmunir þar sem verið var að mótmæla aðgerðarleysi löreglunnar í kynferðisbrotamálum í kjölfar Hlíðarmálsins svokallaðs og svo #MeToo byltingarnar þar sem fjöldi þolenda hefur stigið fram undir nafni eða nafnlaust og sagt frá kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Nú upp á síðkastið hafa fjölmiðlar og hlaðvörp fjallað um mál einstaklinga sem stigið hafa fram og sakað ákveðna aðila um að hafa brotið gegn sér kynferðislega og hafa þau mál jafnvel ekki verið kærð eða verið felld niður á rannsóknarstigi. Hefur það þróast þannig að slíkar ásakanir hafa haft afleiðingar fyrir viðkomandi sem sakaðir eru um ofbeldið. Kann þessi þróun að hafa orðið með tilkomu samfélagsmiðla nútímans þar sem fólk getur tjáð sig um sína upplifun á eigin samfélagsmiðlum. Þá hefur lögregla lýst yfir áhyggjum af auknum vopnaburði í undirheimum og fólks almennt upp á síðkastið, sem hefur haft slæmar afleiðingar í för með sér. Kann það að vera vegna þess að skipulögð glæpastarfsemi á Íslandi hefur farið vaxandi síðustu ár. Um er að ræða alvarlega ógn við samfélag og einstaklinga á Íslandi. Það vakna upp ýmsar spurningar hvers vegna Íslendingar krefjast þyngri refsinga í hinum ýmsu brotaflokkum og hverju slík framkvæmd myndi skila. Telja má að þau sjónarmið er búa að baki þeirri skoðun almennings eigi margt sameiginlegt með þeim grundvallarsjónarmiðum sem færð hafa verið fram í aldanna rás um markmið og réttlætingu refsinga. Í fyrsta lagi má nefna það sjónarmið að þyngri refsingar séu besta ráðið til að draga úr afbrotum. Rannsóknir fræðimanna hafa sýnt fram á að stórhertar refsingar hafi almennt ekki meira en tímabundin áhrif á tíðni afbrota. Í öðru lagi má nefna það sjónarmið að með lengri fangelsisrefsingu sé brotamaðurinn gerður óskaðlegur fyrir samfélagið og möguleikar hans til brotastarfsemi í refsivist séu mjög takmarkaðir. Í þriðja lagi er sjónarmið um betrun brotamannsins í fangelsi. Gengið er út frá því að löng refsivist muni hvort tveggja í senn fæla afbrotamanninn frá því að brjóta aftur af sér svo hann fari ekki aftur í fangelsi og að refsivistin verði honum tími til umhugsunar um nýtt líf eða endurskoðaða breytni. Í fjórða lagi má draga þá ályktun að hefndarsjónarmið ráði þar miklu. Það er viðhorf almennings til einstakra brotaflokka með þeim hætti að þar birtast hefndarsjónarmiðin í sinni skýrustu mynd. Í fimmta lagi má telja að kröfu almennings um þyngri refsingar megi rekja til aukinnar umfjöllunar fjölmiðla um sakamál. Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur hefur m.a. varpað fram því sjónarmiði að auknar áhyggjur Íslendinga af afbrotum séu hugsanlega tilkomnar frá fjölmiðlum. Aukinn áhugi fjölmiðla á afbrotum felst í frekari fréttaflutningi, sé það meginskýringin á auknum áhyggjum fólks, en ekki hinn félagslegi raunveruleiki afbrota í samfélaginu. Oft er þekking almennings á réttarvörslukerfinu ekki nægjanlega mikil, en hugmyndir almennings byggja oft á brotakenndum fréttaflutningi fjölmiðla, sem hafa almennt ekki tilhneigingu til að greina í heild, heldur einskorða umfjöllun sína við einstök og óvenjuleg sakamál, þar sem almenningur bregst oft við með þeim hætti að refsingar fyrir slík brot beri að þyngja sérstaklega. Að lokum verður að hafa í huga að almenn réttarvitund er ekki alltaf byggð á staðreyndum eða þekkingu almennings á viðfangsefninu. Oft er um að ræða að almenningur kynni sér einungis málefni í fjölmiðlum, eins og sjá má á kommentakerfum. Þá tekur dómstóll götunnar við og deila má um ágæti þess. Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður 
26 Sep, 2024
Fyrir nokkru fékk ég inn á borð til mín mál einstaklings sem sviptur var ökuréttindum. Hann var tekinn fyrir ölvunarakstur árið 2018 en málinu lauk ekki fyrr en með sektargerð í janúar 2020 vegna tafa málsins í höndum lögreglu. Þegar kom svo að því að viðkomandi ætlaði að sækja um ökuréttindi að nýju er honum tjáð að hann þurfi fyrst að ljúka sérstöku námskeiði hjá Samgöngustofu. Þannig var mál með vexti að 1. janúar 2020 höfðu ný umferðarlög tekið gildi sem gerðu það að skilyrði fyrir því að fá að ökuprófið aftur að setið væri sérstakt námskeið hjá Samgöngustofu, en slíkt var ekki skilyrði eldri laga sem í gildi voru þegar viðkomandi brot átti sér stað. Hafði umbjóðandi minn samband við lögreglu í júlí 2021 til að fá þessu breytt en lögreglan vísaði honum á Samgöngustofu. Hjá Samgöngustofu var honum svo aftur vísað á lögregluna. Þegar hann leitar á ný til lögreglunnar þá er honum bent á að tala við sýslumann, sýslumaður sagði honum svo enn á ný að hafa samband við lögreglu. Einstaklingurinn var því búinn að fara fram og til baka í kerfinu á milli embætta sem öll virtust vísa hvert á annað. Að vonum ákvað hann að leita til lögmanns. Eftir formleg bréfaskipti við lögregluna fengust þau svör í gegnum síma, ekki skriflega, að það væri alfarið í höndum Samgöngustofu að taka ákvörðun um það hvort viðkomandi þyrfti að sitja umrætt námskeið eður ei, til þess að fá ökuréttindi á ný. Formlegt svarbréf barst frá Samgöngustofu þar sem fram kom að ekki væri hægt að jafna umsókn um ný ökuréttindi við sjálf viðurlögin sem sviptingin felur í sér. Jafnframt að óski einstaklingur eftir því að fá ökuréttindi á ný beri að fara eftir þeim lögum sem gilda á þeim tíma sem slík umsókn berst og því ætti umbjóðandi minn að sitja námskeið sem nýju umferðalögin gerðu skilyrði um. Þessi ákvörðun Samgöngustofu var kærð Innviðaráðuneytis. Vegna tafa á úrslausn málsins hjá ráðuneytinu var svo send kvörtun til Umboðsmanns Alþingis. Ráðuneytið komst svo að þeirri niðurstöðu að það væri ekki hlutverk Samgöngustofu að kveða á um skilyrði þess að geta öðlast ökurétt að nýju gagnvart þeim sem hafa verið sviptir ökuréttindum og óska eftir að öðlast þau á ný, heldur sýslumanns eða eftir atvikum lögreglustjóra. Ráðuneytið tók einnig fram að samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins lægi fyrir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi breytt lagalegri túlkun sinni á því hvort einstaklingar sem sviptir voru ökuskírteini í gildistíð eldri umferðarlaga þurfi að undirgangast námskeið hjá Samgöngustofu samkvæmt 3. mgr. 63. gr. umferðarlaga. Er nú þeim sem hafa verið sviptir í gildistíð eldri laga ekki gert að sækja sérstakt námskeið líkt og áður var krafist. Líkt og áður hefur verið rakið þá hefur ferlið frá því að umbjóðandi minn reyndi fyrst sjálfur að fá svör frá lögreglunni júlí 2021 og allt fram til júlí ári síðar verið langt og strangt. Hafði umbjóðandi minn áður leitað aðstoðar vegna málsins hjá lögreglu og sýslumanni en án árangurs. Það er svo ekki fyrr en að málið er komið til ráðuneytisins að í ljós kemur að hann þurfti ekki að sitja umrætt námskeið hjá Samgöngustofu, eins og hann hafði sjálfur alltaf haldið fram. Það virðist því hafa verið geðþóttaákvörðun embættismanna að setja honum þá kröfu að sitja umrætt námskeið án skýrar lagaheimlidir um slíkt. Það sem er svo einnig mjög alvarlegt í þessu er sú staðreynd að hann í reynd fékk enga afgreiðslu innan stjórnsýslunnar þegar hann óskaði eftir því. Honum er vísað fram og til baka og enginn virðist treysta sér til þess að takast á við röksemdir hans sem voru vel grundaðar og studdar lagatilvísunum. Það var þá ekki fyrr en málið var komið til ráðuneytisins og til umboðsmanns Alþingis að málið fór að fá úrvinnslu. Eftir situr spurningin um skilvirkni kerfisins og hvernig það er eiginlega að virka fyrir almenna borgara sem þurfa leiðbeiningar. Ef þetta mál er dæmigert fyrir málsmeðferðina er augljóst að fólk getur ekki leitað til stjórnsýslunnar án liðsinnis lögmanns. Þá má líka spyrja sig hvernig jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins er framfylgt því ofangreint dæmi gefur það til kynna að þeir sem hafa úthaldið og burði til að kaupa sér þjónustu lögmanna fá betri afgreiðslu á endanum. Er þetta kerfið sem við viljum hafa? Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður
26 Sep, 2024
Fyrir ekki svo löngu síðan var skipuð svokölluð aðgengisnefnd RÚV sem gaf út aðgengisstefnu Ríkisútvarpsins. Í umræddri aðgengisstefnu er lögð áhersla á að fjölbreytileiki í samfélaginu endurspeglist í miðlum RÚV. Það þýðir meðal annars að RÚV leggur áherslu á og beinlínis hvetur áhugasama um að sækja um störf hjá umræddum miðlum óháð kyni, kyntjáningu, þjóðerni og líkamlegu atgervi. Hér er RÚV sem er félag í ríkiseigu og þar með í eigu landsmanna að tryggja öllum, óháð aðstæðum eða stöðu, möguleika á að taka þátt í starfi innan félagsins. Þetta er jú mjög göfugt markmið hjá stofnun eins og RÚV sem byggir sína fjárhagslegu velferð á opinberum fjárveitingum skattgreiðenda. En þrátt fyrir hin göfugu markmið hinnar ágætu stofnunnar hafa miklar breytingar átt sér stað undir nýrri stjórn. Síðastliðið haust urðu breytingar hjá stofnuninni sem fólust meðal annars í því að táknmálsfréttir, sem höfðu verið við lýði um nærri 40 ára skeið, voru lagðar niður og ný aðferð tekin upp við miðlum frétta til heyrnarlausra. Þar var meðal annars heyrnarlausum einstaklingum sagt upp hjá stofnuninni sem höfðu starfað fyrir RÚV við gerð táknmálsfrétta í 38 ár. Var farið í það að ráða þess í stað einstaklinga með fulla heyrn til þess að táknmálstúlka sjónvarpsfréttir í rauntíma. Var heyrnarlausum einstaklingum sagt upp störfum af þessum sökum. Þessi ákvörðun hafði gífurleg áhrif á líf heyrnarlausra einstaklinga sem höfðu starfað fyrir stofnunina í áratugi og olli miklu fjárhagslegu og tilfinningalegu tjóni. Þetta er sérstaklega slæmt í ljósi þess að um er að ræða einstakling sem eiga ekki auðvelt aðgengi að annarri vinnu en þeirri sem þeir höfðu áður hjá RÚV. Þrátt fyrir göfug markmið stjórnenda RÚV um að greiða leið þeirra sem tilheyra viðkvæmum minnihlutahópum aðgengi að vinnu hjá stofnunni þá hefur lítið áorkast í að finna þeim sem misstu vinnuna við breytingarnar ný hlutverk hjá stofnunni. Ljóst má vera að þeir sem misstu vinnuna vegna umræddra breytinga hafa orðið fyrir verulegu tjóni vegna ákvörðunar RÚV að leggja niður táknmálsfréttir og fá þess í stað einstaklinga sem ekki eru heyrnarlausir og búa ekki við þá skerðingu að vera með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu til að flytja fréttirnar. Umræddur hópur sem missti vinnuna tilheyrir viðkvæmum hópi þar sem þeir líkt og áður sagði eru heyrnarlausir og njóta því sérstakrar verndar. Í 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 er að finna almenna jafnræðisreglu, þar sem kemur fram að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Ekki er um tæmandi talningu að ræða og orðalagið „stöðu að öðru leyti“ nær til fjölmargra atriða, svo sem heilsufars eða líkamlegs ástands. Þar að auki hefur dómaframkvæmd staðfest að mismunun á grundvelli fötlunar falli undir umrætt ákvæði stjórnarskrárinnar. Einnig er fjallað um bann við mismunun í 13. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. RÚV er þjóðarmiðill sem er ætlað að stuðla að menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi, skv. 1. mgr. 1. gr. laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Með því að útiloka umræddan hóp sem fellst í því að segja þeim upp og þá vinnu sem þau hafa stundað síðustu árin á RÚV er verið að koma í veg fyrir þá menningarlegu fjölbreytni sem RÚV á að stuðla að. Það verður heldur ekki framhjá því lítið að þessir einstaklingar tilheyra viðkvæmum hópi fólks og standa nú á móti stóru fyrirtæki í eigu íslenska ríkisins. Er umræddur hópur því í sérstaklega veikri samningsstöðu gagnvart RÚV og það að RÚV skuli úthýsa slíkum hópi er gífurlega slæmt. Sérstaklega í ljósi þess að fyrirtækið er í eigu íslenska ríkisins sem hefur undirritað og fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Eitt af megin markmiðum samningsins er að tryggja jafnrétti og bann við mismunum á grundvelli fötlunar á öllum sviðum samfélagsins. Í 27. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er svo sérstaklega fjallað um vinnu og starf. Þar er kveðið á um að aðildarríki skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra til vinnu. Líkt og ég hef áður komið inn á þá er RÚV hætt með almennan táknmálsfréttatíma þar sem heyrnarlausir einstaklingar flytja fréttir á táknmáli áður en hinn hefðbundni fréttatími byrjar og þess í stað fá einstaklinga sem ekki búa við heyrnarskerðingar að flytja táknmálsfréttir í rauntíma með hinum hefðbundna fréttatíma Ríkisútvarpsins. Með því er verið að hafa atvinnu af þeim einstaklingum sem búa við samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og þess í stað ráða einstaklinga sem ekki búa við slíkar skerðingar. Það verður ekki framhjá því litið að það hefði verið nær að standa betur að umræddum uppsögnum og tryggja það að við breytingarnar hefði verið tilbúin áætlun sem hefði tekið strax við þannig að störf innan RÚV hefðu verið í boði fyrir þennan hóp, önnur en tilfallandi tímabundin verkefni. Þess í stað hefur þessi hópur verið í óvissu með framhaldið síðan umrædd uppsögn var tilkynnt. RÚV hefur brugðist við gagnrýni vegna umræddra uppsagna með þeim hætti að segja að breytingarnar hafi verið nauðsynlegar og í takt við nútímakröfur og aðgengi að fréttum. Það má auðvitað færa rök fyrir því að svo sé en það breytir ekki þeirri staðreynd að einstaklingar innan þessa hóps hafa ekki fengið ný störf í kjölfar uppsagna og lítið orðið um gefin loforð um úrbætur í þeim efnum. Þá verður að gagnrýna að RÚV hefur haldið því fram að breytingarnar hafi mælst vel fyrir hjá heyrnarlausum. Sú fullyrðing er ekki byggð á formlegri athugun og virðist einungis studd við umsögn aðila sem lét þá skoðun sína í ljós með óformlegum hætti. Hvað sem þessu líður þá er ljóst að það gengur ekki upp að útiloka minnihlutahóp, sem hefur með hollustu og trygglyndi sinnt störfum sínum í áratugi, frá störfum innan stofnunarinnar á sama tíma og því er haldið fram að verið sé að tryggja aðgengi minnihlutahópa að störfum innan stofnunarinnar. Hér fer ekki saman hljóð og mynd í rökstuðningi RÚV.  Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður
25 Sep, 2024
Réttindabarátta hinsegin fólks hefur náð miklum árangri þó einhver bakslög hafa komið. Við getum litið til baka og minnst þess hversu langt við höfum náð. Sumir hafa meira að segja verið heiðraðir fyrir framlag sitt til þeirrar baráttu, þótt deila megi um hversu vel einstaka aðilar hafi verið að þeirri viðurkenningu komnir. Það er brýnt að minnast þeirra sem ruddu brautina fyrir hinsegin fólk á Íslandi - þeirra sem sjaldan og jafnvel aldrei er minnst á. Það eru þeir sem féllu fyrir Alnæmi á upphafsárum þess skelfilega sjúkdóms í byrjun níunda áratugarins. Samhengi hlutanna kemur betur í ljós þegar litið er til baka og réttindabarátta hinsegin fólks var skammt á veg kominn í upphaf níunda áratugarins þegar þessi illvígi sjúkdómur fór að herja á samkynhneigða karlmenn hér landi. Sjúkdómurinn ýtti undir fordóma í garð samkynhneigðra, sem áttu þá þegar undir högg að sækja í baráttunni fyrir tilverurétti sínum. Áhrifin voru skelfileg og gjá myndaðist í samfélaginu á milli þess annars vegar að sinna þessum fárveiku einstaklingum og hins vegar að vilja ekkert með þá hafa. Stjórnvöld bæði hér heima og erlendis voru treg til að viðurkenna að um einhvers konar faraldur væri að ræða og því var ekki grípið til forvarna eða forvirkra aðgerða í upphafi. Það dylst engum sem skoða söguna að á þessum tíma grasseraði hér á landi kerfislæg andstaða við samkynhneigð sem hafði áhrif á hvernig tekið var á þessum málum. Þeir sem veiktust og aðstandendur þeirra þurftu oftar en ekki að fela veikindi sín vegna fordóma innan samfélagsins og jafnvel innan heilbrigðiskerfisins sjálfs. Hinir veiku fengu oft gloppótta þjónustu innan heilbrigðiskerfisins, þjónustu sem við teljum í dag sjálfsagða, og henni fylgdi oft smánun og jafnvel fyrirlitning. Það er furðulegt í því samfélagi sem við lifum í dag, með reynsluna eftir Covid-19 faraldurinn, að hugsa til þrautagöngu þeirra sem smituðust af HIV á sínum tíma og aðstandenda þeirra. Hefði samfélagið og kerfið tekið á málum með skynsemi og röggsemi, líkt og við gerðum í Covid-19 faraldrinum, þá hefði sagan og afleiðingarnar orðið aðrar en raun ber vitni. Það er auðvelt að vera vitur eftir á þegar horft er til baka á liðna atburði með gleraugum nútímans en þrátt fyrir það þá stendur upp úr sú staðreynd að fordómar og fáfræði höfðu alltof mikil áhrif. Það var ekki fyrr en að aðstandendur sjálfir, samfélag samkynhneigðra og einstaka heilbrigðisstarfsmenn fóru að taka málin í sínar eigin hendur að stjórnvöld tóku loks á sig rögg. Það rann upp fyrir yfirvöldum að til þess að geta tekið á faraldrinum þá þurfti að viðurkenna tilverurétt og réttindi þessa samfélagshóps. Því miður var það nokkrum árum of seint og skaðinn orðinn mikill þegar horft er á þau mannslíf sem glötuðust, fyrir utan þau fjölmörgu mannréttindabrot sem þessi hópur þurfti að þola. Þegar sögur þessara manna og fjölskyldna þeirra eru skoðaðar er deginum ljósara hversu þungt fórnir þeirra vega á framþróun réttinda samkynhneigðra. Það var áralöng barátta þessa fólks við heilbrigðiskerfið og samfélagið sem að lokum skilaði því að stjórnvöld fóru að sjá hlutina í réttu ljósi. Og um leið og sjúkdómurinn fór að vera meðhöndlaður af skynsemi þá rann upp fyrir fólki hve augljós réttindabarátta samkynhneigðra væri. Þessi saga líkt og aðrar sögur fær sinn dóm hjá seinni tíma kynslóðum. Það er löngu orðið tímabært að hún fái sitt réttmæta uppgjör, líkt og gert hefur verið á öðrum sviðum þar sem stjórnvöld hafa brugðist þeim sem þurftu á aðstoð og stuðningi að halda. Þessa sögu verður að skoða í réttum ljósi og við sem samfélag og hið opinbera að viðurkenna mistökin sem voru gerð en um leið sýna þeim sem fórnuðu öllu, þar á meðal lífi sínu, þá mannlegu virðingu sem samtíminn neitaði þeim um en þeir áttu svo sannarlega skilið. Ríkisstjórnin ætti að biðja þetta fólk afsökunar á þeirri vanvirðandi meðferð sem það fékk af hendi heilbrigðiskerfisins. Samfélagið, sér í lagi hinsegin samfélagið, á að minnast þessara einstaklinga og sýna þeim og þjáningum þeirra virðingu. Það er mín ósk að þeim yrði veittur verðskuldaður heiðurs, jafnvel reistur minnisvarði eða önnur opinber viðurkenning. Án þeirra er ekki sjálfgefið að við stæðum í þeim sporum sem við gerum í dag. Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður
25 Sep, 2024
Gagnrýnisraddir um málsmeðferð samrunamála hjá Samkeppniseftirlitinu hafa títt komið fram og þá einkum varðandi málshraða. Eftirlit með samrunum byggir að mestu leyti á skyldu fyrirtækja til þess að tilkynna Samkeppniseftirlitinu um samruna yfir tilteknum viðmiðunarmörkum. Meðferð þessara mála er bundinn ströngum tímamörkum í lögum og skipt upp í tvo númeraða fasa. Fasi I er 25 virkir daga sem er ca. 5 vikur en fasi II er 90 virkri daga eða ca. 18 vikur. Samanlagt er því lögbundinn frestur Samkeppniseftirlitsins til þess að leysa úr samrunatilkynningu tæpir 6 mánuðir. Vissulega er háflt ár langur tími rekstarlega séð og margt sem getur gerst hjá aðilum sem hafa bundist samning um samruna og bíða eftir að fá að framkvæma hann. Við meðferð þessara mála þarf að hafa í huga jafnvægi milli þeirra hagsmuna að rannsókn mála sé vönduð annars vegar og hins vegar að fyrirtæki geti stundað frjáls viðskipti, þ.m.t sameinast og kaupa önnur félag, og að þau viðskipti gangi hratt og örugglega fyrir sig enda eru oftar en ekki mikli hagsmunir og fjármunir í húfi sem þoli litla bið. Hingað til hefur áherslan verið á það að rannsaka þessi mál og afgreiða á sem skemmstum tíma þannig að samrunaeftirlit skili tilætluðum árangri. Hins vegar er ekki síður mikilvægt að afgreiða hratt þá samruna sem gefa litið tilefni til íhlutunar. Í því felst einmitt tilgangurinn með skiptingu málsmeðferðarinnar í tvo fasa. Tilgangur fyrri fasans er að vinsa úr þau mál sem ekki þarf að rannsaka og eyða tíma í. Af þeim sökum á samruni ekki að fara upp á fasa II nema raunverulega líkur séu á íhlutun. Í þessu samhengi má vitna í skýrslu Ríkisendurskoðanda frá ágúst í fyrra um framkvæmd samrunamála. Þar kom fram að á árunum 2018 til 2020 hafi 50 samrunamál farið upp á fasa II en af þeim hafi 23 lokið án nokkurrar íhlutunar. Í þessum málaflokki ætti höfuðáherslan að vera að afgreiða sem flest mál á fasa I og ekkert mál ætti að fara upp á fasa II nema rökstuddar líkur séu á íhlutun. Í fyrrgreindri skýrslu Ríkisendurskoðanda kom einnig fram það sjónarmið Samkeppniseftirlitsins að vanda þyrfi samrunatilkynningar m.a. í þessu skyni að flýta fyrir mati á áhrifum samruna. Í þessu samhengi má vekja máls á því að oft hefur verið bent á ógagnsæi hvað varðar nálgun samkeppnisyfirvalda til t.d. markaðsskilgreininga og mats á stöðu aðila. Markaðsskilgreiningar er gunnurinn að mat á stöðu fyrirtækja og órjúfanlegur þáttur í öllum samrunamálum og flestu öðrum málum sem lúta rannsókna Samkeppniseftirlitsins. Ein leið til þess að geta auðveldað samrunaferlið og þá einkum þá vinnu að afgreiða tilkynningar á fasa I væri að auka markaðsrannsóknir Samkeppniseftirlitins. Með því gæti Samkeppniseftirlitið byggt upp gagnabanka um markaði hér á landi, skilgreiningar þeirra, hverjir séu keppinautar og mögulega stöðu þeirra. Þessar markaðsrannsóknir gætu verði aðgengilegar og nýst fyrirtækjum t.d. til þess að meta hugsanlega samruna og áhrif þeirra og hvort þeir séu yfir höfðu mögulegir en einnig nýst við að útbúa samrunaskrár til Samkeppnisetirlitsins. Þannig gætu auknar markaðsrannsóknir stuðlað að auknum gæðum samrunatilkynninga enda hafa samrunaaðilar oft takmarkað aðgengi að upplýsingum til þess að meta markaði, t.d. varðandi hlutdeild og stöðu keppinauta sem getur haft áhrif á mat á hlutdeild og stöðu þeirra sjálfra. Aukið gagnsæi og gæði að þessu leyti myndi skila sér í aukinni skilvirkni í málsmeðferðinni og myndi leiða til þess að hægt væri að ljúka fleiri samrunamálum á fasa I. Þessi vinna ætti líka að auðvelda Samkeppniseftirlitinu störf sín í öðrum málum enda eru markaðsskilgreiningar mikilvægur liður í rannsóknum flestra mála. Með því að byggja upp gagnarunn um markaðsskilgreiningar og markaði væri Samkeppniseftirlitið að auðvelda og flýta málsmeðferð, auka gæði og gagnsæi sem kæmi öllum vel. Þetta ætti því að vera forgangsmál hjá stjórnendum Samkeppniseftirlitsins. Sævar Þór Jónsson - Hæstarréttarlögmaður
25 Sep, 2024
Víða er ótryggt ástand bæði efnahagslega og hernaðarlega. Óstöðugleikinn vegna átaka bæði í Ísrael og Úkraínu hefur ýtt undir ákveðnar efnahagsþrengingar. Mörg ríki þar á meðal Bandaríkin hafa varað við þessu ástandi og einkum áhrif þess á efnahagsmál. Hafa sum ríki gripið til ráðstafana sem eiga að draga úr hversu háð þau eru öðrum ríkjum efnahagslega og í öryggismálum. Það má velta fyrir sér hversu mikið öryggi NATÓ aðild veitir en stríðið í Úkraínu sýndi að ekki var hægt að ganga að samheldninni vísri. Ef til vill flýtur lítið eyríki eins og Ísland sofandi að feigðarósi ef það telur öryggi sínu borgið í einni sæng með bandalagsríkjum NATÓ. Eflaust má benda á ýmis rök með og á móti en sem betur fer hefur aldrei reynt á þetta í sögu NATÓ. Lítið örríki eins og Ísland getur sín lítils í heimi stórvelda þrátt fyrir að fyrrv. forseti lýðveldisins leiki sér að því á eftirlaunaaldri að telja okkur trú um að við séum mikils megnug í umhverfismálum heimsins og okkar ágæti forsætisráðherra telur að við höfum rödd í heimi stjórnmálanna þannig mark sé tekið á. Auðvitað getur þessa litla þjóð verið fyrirmynd en áhrif hennar á heimsmálin eru hverfandi þó atvinnustjórnmálamenn vilji telja okkur þegnum landsins trú um annað. Getuleysi stjórnmálamanna hér á landi felst í því að vera ekki nægilega framsýnir og hafa dug til að taka ákvarðanir sem miðað að því að tryggja velferð þjóðarinnar efnahagslega og öryggislega, einkum þegar efnahagshorfur í heiminum eru óstöðugar. Í því samhengi vegur þungt fæðuöryggi þessarar þjóðar. Kjör íslensku bændastéttarinnar hafa hnignað mikið undanfarin ár og sá sem þessi orð skrifar hefur áhyggjur af framtíð hennar. Í reynd eru talsmenn íslensks landbúnaðar fáir og vanmáttugir. Stjórnmálamenn virðist litinn skilning hafa af ástandinu hjá íslenskum bændum og ef marka má umræðuna á Alþingi virðast þeir oft ekki sjá skóginn fyrir trjánum. Afar brýnt er að íslenskir stjórnmálamenn vakni og einbeiti sér að því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar í ótryggum heimi. Staða bænda á Íslandi er slæm og hefur versnað mikið að undanförnu. Lítið ber á viðbrögðum ríkisstjórnarinnar eða stjórnmálamanna almennt við þessu ástandi sem er grafalvarlegt. Nýliðun í stétt bænda er ekki næg ef horft er til framtíðarinnar, fjölgun þjóðarinnar og aukins álags vegna sívaxandi straums ferðamanna til landsins. Fjölgun þjóðarinnar er staðreynd sem ber að horfa til en ljóst er eins og staðan er núna að það verður ekki hægt að halda í við þá þróun hvað landbúnað og fæðuframleiðslu varðar, verði ekki gripið til aðgerða. Horfur í efnahags- og stjórnmálum heimsins bæta heldur ekki úr skák. Hagsmunasamtök kaupmanna tala fyrir auknum innflutningi á matvörum eins og það sé lausnin á vandanum. Staðreyndin er sú að íslenskur landbúnaður býr ekki við alla þá styrki og miðstýringu sem landbúnaður í Evrópu og jafnvel Bandaríkjunum býr við. Staðreynd málsins er sú að íslenskir bændur búa við verri skilyrði þegar kemur að ræktun, styrkjum, tollum og allri aðstoð í sínum rekstri en t.d. bændur innan Evrópusambandsins og jafnvel annars staðar. Allt tal um aukinn innflutning er til höfuðs íslenskum bændum sem geta ekki keppt við niðurgreidda landbúnaðarframleiðslu frá Evrópu. Það þjónar heldur ekki öryggi þessarar þjóðar, hvorki efnahagslega en að öðru leyti, að huga ekki vel að eigin fæðuöryggi með því að tryggja eigin framleiðslu. Það er orðið tímabært að bændur fái hljómgrunn hjá ráðamönnum sem hafa ef eitthvað fjarlægst þá mikið. Matvælaframleiðendur eiga sér fáa talsmenn og þeir stjórnmálamenn sem nú eru á Alþingi virðast hafa litla þekkingu og skilning á stöðunni sem gengur ekki upp. Öryggi þjóðarinnar í fæðumálum er í uppnámi og í því ástandi sem nú er í heimi óstöðuleika er mikilvægt að byggt sé undir íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu. Það sjá það allir sem vilja að til að íslenskur landbúnaður geti keppt við innflutning þá þurfi að auka við styrki og stuðning við íslenska bændur. Íslenskur landbúnaður er einstakur á heimsvísu þegar kemur að heilbrigði og gæðum til neytenda og því er til mikils að vinna að styðja betur við hann.  Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður
25 Sep, 2024
Ekki er ýkja langt síðan að upp komst um röð mistaka sem gerð voru við greiningu skjólstæðinga Krabbameinsfélagsins. Afleiðingar þeirra mistaka voru skelfilegar fyrir suma skjólstæðinga félagsins og enn þá er verið að vinna úr málum fjölmargra þeirra. Málin eru fleiri en rötuðu í fréttir á sínum tíma og mörg þeirra vekja upp spurningar um gæðamál innan heilbrigðiskerfisins almennt. Á lögmannsstofu minni höfum við aðstoðað marga að sækja bætur vegna misalvarlegra mistaka. Þótt vel hafi gengið að sækja bætur í mörgum málum þá fær maður stundum á tilfinninguna að kerfið leggi meiri áherslu á að verji sjálft sig en að gangast við mistökum og læra af þeim líkt og eðlilegt ætti að vera innan faglegra þjónustugreina. Þessi tregða innan kerfisins hefur endurspeglast í þeim afsökunum eða ástæðum sem gefnar hafa verið upp fyrir því að mistökin hafi átt sér stað. Þær hafa verið fjölmargar, allt frá því að vera að starfsmaður sé kominn á aldur, starfsmaður hafi verið að sinna of mörgum verkefnum, starfsmaður hafi ekki sinnt starfi sínu sem skyldi vegna persónulegra vandamála og jafnvel hefur fjárskortur verið nefndur. Steininn tók úr í einu máli sem er mér sérstaklega minnisstætt en þar hafði krabbamein verið greint löngu seinna en tilefni gaf til. Upplýsingum, sem gáfu tilefni til frekari rannsóknar, var ekki skilað áleiðis innan heilbrigðiskerfisins með þeim afleiðingum að viðkomandi einstaklingur var ekki greindur með krabbamein í tæka tíð. Í stað þess að gangast við mistökum af auðmýkt var því tjaldað til sem skýring að mistök við að koma mikilvægri bréfsendingu á milli stofnana væru ef til vill póstinum að kenna. Sem sagt pósturinn á kannski að hafa týnt bréfinu. Ekki var talið hægt að staðfesta að heilbrigðis starfsmenn hefðu gert mistök, annað hvort við sendingu upplýsinganna eða við móttöku þeirra. Nánar tiltekið fengust þau svör að skýrar verklagsreglur væru til staðar um hvernig ætti að póstleggja bréf með mikilvægum niðurstöðum og hvernig ætti að vinna úr slíkum upplýsingum þegar þær eru mótteknar, það var aftur á móti ekki hægt að staðfesta hvort farið hafði verið eftir þeim reglum eður ei. Og þar sem ekki var hægt að staðfesta að mistökin hafi verið gerð innan heilbrigðiskerfisins þá er skuldinni skellt á einhvern annan. Með öðrum orðum Pósturinn týndi bréfinu. Það er augljóst í mínum huga að mistökin í ofangreindu tilviki eru alfarið á ábyrgð heilbrigðiskerfisins. Það var á ábyrgð viðkomandi stofnunar sem átti að senda bréfið að það yrði gert og til staðar væri gæðaeftirlit sem fylgi því eftir að það væri gert þannig að hægt væri að staðfest eftir á hvort viðkomandi verklagsreglum hefði verið fylgt eður ei. Skortur þar á, þar með talið skortur á því að hægt væri að staðfest hvort verklagi var fylgt, er alfarið á ábyrgð viðkomandi stofnunar. Sama á við um þá stofnun sem átti að móttaka bréfið og vinna úr því. Að mínum dómi er það hreint og beint virðingarleysi við það fólk sem hefur orðið fyrir heilsutjóni vegna mistaka innan kerfisins að þurfa að hlusta á þessar réttlætingar. Rót vandans að baki öllum þessum málum er skortur á gæðaeftirliti innan heilbrigðiskerfisins. Ef ætti að draga einhvern lærdóm af þeim málum sem komu upp hjá leitarstöð Krabbameinsfélagsins þá er það mikilvægi gæðaeftirlits. Þetta er þegar orðin dýr lexía en látum hana ekki fram hjá okkur fara. Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður
25 Sep, 2024
Það er víða vandi við stjórnun þessa lands. Stjórnarflokkarnir eru langt því frá samstíga við stjórnun landsins og mikil ólga á meðla þeirra. Það sem heldur þeim hugsanlega saman er ástandið í efnahagsmálum og ástandið í Grindavík. Þetta er eins og hjá hjónum sem eru búin að ákveða að skilja en ætla að hanga saman fram yfir jól, svona fyrir börnin. Leiða má líkum að því að eftir skilnaðinn verði skiptin ekki jöfn og þar hallar eflaust mest á Vinstri-græn sem fara hvað verst út úr þessu ef marka má kannanir. Þá má þó ekki gleyma einum mikilvægum þætti í þessu og það eru völdin sem stjórnmálamenn virðist halda fast í og vilja ekki sleppa hendinni af þrátt fyrir óánægju innan eigin raða með stjórnarsamstarfið. En vandinn er ekki bara misklíð á stjórnarheimilinu því landið virðist vera sumpart stjórnlaust. Það væri of langt mál að skrifa um það allt í grein þessari á þessum fallega sunnudegi en staðreyndin er sú að ef horft er á vandamálin sem steðja að þessari þjóð þá má vel draga þá ályktun að landið sé á barmi stjórnleysis. Í innflytjendamálum ríkir algjört stjórnleysi eða stefnuleysi sem lýsir sér í hömlulausum fjárútlátum og getuleysi í því að móta stefnu til að taka á þeim málum. Afgreiðsla mála er seinvirk sem kostar þessa litlu þjóð gríðlega fjármuni. Geta til að taka á móti fólki eða sinna þörfum þess er á þolmörkum. Önnur þjónusta líka, s.s. við borgara þessa lands hvort sem það er í heilbrigðiskerfinu og á sviði félagsþjónustu. Öldrunarmál eru reyndar í ógöngum vegna stefnuleysis. Aldraðir einstaklingar sem þurfa þjónustu eða sértæk úrræði enda á biðlista eftir þjónustu og stundum mætti halda að stefna í málaflokknum væri einfaldlega að bíða eftir því að viðkomandi falli frá svo ekki þurfi að sinna honum. Þá kárnar gamanið í samgöngumálum þar sem stefnan er að skattleggja borgara þessa lands enn frekar til að viðhalda vegakerfi sem átti upphaflega að viðhalda með annarri skattheimtu sem virðist ekki lengur duga til þess. Þá virðist stefnubreyting hafa skyndilega orðið í rafbílavæðingunni með nýrri skattheimtu sem hefur dregið verulega úr kaupum á rafbílum. Það er kannski bara gott því innviðir eru hvort eð er ekki tilbúnir til að taka á móti nýjum rafbílum og orkuskortur virðist yfirvofandi í orkumálum. Efnahagsmálin eru heldur ekki góð því hér er óðaverðbólga sem virðist ekki vera hægt að ná tökum á. Það stoppaði samt ekki stjórnvöld í að halda stóra veislu fyrir stórþjóðir heimsins sem kostaði okkur milljarða bara svo ásýnd landsins yrði betri út á við en innihald var fyrir. Embættismannakerfið svokallaða þrífst vel í þessum aðstæðum eins og sjá má á nýlegu dæmi um bónuskerfi skattaeftirlitsins þar sem starfsmenn eftirlitsins gátu skaffað sér háa bónusa á kostnað skattgreiðenda með því að kreist meira út úr skattgreiðendum, því meira sem var kreist - því meira fengu þeir í eigin vasa. Þetta þótti embættismönnum hið best mál þar til upp komst og fjölmiðlar fóru að þjarma að þeim. Sama er hægt að segja um dómstóla landsins þar sem engin stjórnsýsla er til staðar og dómstjórar ráða lögum og lofum án eftirlits. Líklega er Ísland eina Norðurlandaþjóðin sem viðhefur slíkt kerfi sem er í reynd galið að ekki sé meira gagnsæi við stjórnun dómstólanna, sem eiga að útdeila réttlæti í landinu. Í lokin ekki gleyma höfuðborginni okkar sem ræðst á almenna borgara með sektargreiðslum vegna bílastæða sem fólk hefur nýtt í áratugi. Sumir kalla þetta enn eitt dæmið um aðförina að einkabílnum en kannski er borgin bara orðin svona blönk eftir áralanga vinstri slagsíðu og stjórnleysi í fjármálum. Það er alveg ljóst að þessi þjóð þarf nú kjarkmikla stjórnmálamenn sem þora að móta raunhæfa stefnu í þessum málum sem er hægt að vinna þannig að stjórnsýslan og stjórnun landsins verði markviss og gagnsæ.  Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður
25 Sep, 2024
Nýlega tóku í gildi breytingar á jarðalögum nr. 81/2004 er varða m.a. jarðir í óskiptri sameign. Breytingarnar sem snéru að jörðum í sameign fólu einkum í sér reglur um samráð og ákvarðanir sameigenda en einnig var kveðið á um forkaupsrétt þeirra að eignarhlutum í sameigninni. Í nýju lagaákvæðunum er kveðið á um að forkaupsréttur sameigenda verður ekki aðeins virkur við sölu eignarhlutar heldur einnig við aðra ráðstöfun og yfirfærslu á beinum eignarrétti. Þá kveða þau einnig á um að undantekningarregla 1. töluliðar31. gr. laganna gildi ekki um forkaupsrétt sameiganda. Það þýðir að forkaupsrétturinn verður virkur við erfðir, með öðrum orðum þurfa erfingjar að eignarhlut í jörð nú að þola forkaupsrétt annarra sameigenda. Tilgangur þessara lagabreytinga samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð sem fylgdi lagafrumvarpinu var að sporna við því að sameigendur að jörð verði of margir. Reynslanhafi sýnt að erfitt geti reynst að hafa uppi á öllum sameigendum og taka bindandi ákvarðanir um ráðstöfun eða hagnýtingu jarðar. Einnig valdi það vandkvæðum við friðlýsingu á grundvelli náttúruverndarlaga. Svipaða röksemdafærslu varðandi forkaupsrétt búa að baki ákvæðum um hömlur á meðferð hluta í lögum um hlutafélög nr. 2/1995 og lögum um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þótt almennt megi framselja og veðsetja hlutafé að vild þá heimila framangreind lög að hömlur séu settar á meðferð hluta upp að vissu marki. Vegast þar að baki annars vegar þeir hagsmunir hluthafa að geta ráðstafað hlut sínum frjálst og hins vegar hagsmunir annarra hluthafa að hlutunum sé haldið innan tiltekins hóps. Þetta gildir þó aðeins um lífsgerninga en ekki aðilaskipti meðarftöku. Einnig er fróðlegt er að bera saman forkaupsrétt sameigenda við forkaupsrétt ábúanda sem einnig er fjallað um í jarðalögum. Forkaupsréttur ábúenda hefur lengi verið við lýði en hann nær ekki til erfða þegar jörð gengur til maka, niðja, foreldra og systkina. Eignarétturinn er friðhelgur eins og segir í 72. gr. stjórnarskrá lýðveldisins. Undir þá helgi fellur m.a. erfðarétturinn. Þrátt fyrir það getur löggjafinn með lögum heimilað ákveðnar almennar takmarkanir á eignaréttinum en þær þurfa að helgasta af nauðsyn. Í því felst einnig að meðalhófs skal gætt við takmarkanir eignaréttarins og ekki gengið lengra en nauðsyn krefur til að ná því markmiði sem stefnt er að. Ofangreindar breytingar á jarðalögum voru studdar rökum um nauðsyn þess að sporna við því að sameigendur að jörð verði of margir og setja skýrar reglur um hvernig hægt sé að taka bindandi ákvarðanir um ráðstöfun eða hagnýtingu jarðar í sameign, þ.m.t um friðlýsingu þeirra. Engan sérstakan rökstuðning er að finna í lögskýringargögnum fyrir því að gera erfðir háðan forkaupsrétti sameigenda. Væntanlega er það í því skyni að sameigendum fjölgi ekki úr hófi. En hver er nauðsynin þar að baki. Fjöldi hluthafa í hlutafélagi geta hlaupið á hundruðum, það stendur ekki í vegi fyrir ákvarðanatöku í félaginu. Að sama skapi ætti fjöldi sameigenda að jörð ekki að standa í vegi þess að hægt sé að taka bindandi ákvarðanir um jörðina. Til þess þarf einfaldlega skýrar reglur um hvernig hægt sé að taka slíkar ákvarðanir svo bindandi sé, t.d. um boðun funda, afl og vægi atkvæða o.s.frv. Þar sem engin sérstök lög gilda um óskipta sameign hafði löggjafinn frjálsar hendur til þess að skipa þessum málum með þeim hætti að hægt væri að auðvelda ákvarðanatöku án þess að þurfa skerða við eignaréttinum líkt og gert var. Í ljósi þessa má telja að líkur sé á því að framangreindar lagabreytingar stangist á við stjórnarskrá, alltént hvað varðar þær hömlur á eignarrétti sem af þeim leiðir. Að öllum líkindum mun koma til kasta dómstóla og Hæstaréttar að skera úr stjórnskipunarlegugildi þeirra. Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður
25 Sep, 2024
Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands enda um 40% hjónabanda með lögskilnaði. Áður en lögskilnaður er veittur þarf fólk að slíta fjárfélagi sínu sem það hefur haft í hjúskapnum. Oftast gilda þá helmingaskiptaregla hjúskaparréttarins. En stundum eru áherslur fólks aðrar en fjárhagslegar en geta samt spilað inn í fjárslitin með ýmsum hætti. Eitt nýlegt dæmi endaði fyrir dómi. Þar höfðu hjón tengt lögheimili og skólagöngu barnanna við fjárslitin þegar þau skildu. Hjónin áttu fasteign saman sem var heimili fjölskyldunnar. Aðilar voru sammála um mikilvægi þess að tryggja stöðugleika fyrir börnin sem voru á grunnskólaaldri. Af þeim sökum sömdu hjónin um að konan héldi fasteigninni, heimili fjölskyldunnar, án þess að borga manninn út og börnin hefðu lögheimili hjá henni. Maðurinn setti það skilyrði að börnin myndu þá klára skólagöngu sína í sama sveitarfélagi og konan myndi ekki flytja með þau í annað sveitarfélaga meðan þau væru í grunnskóla. Ef konan myndi gera það þá ætti maðurinn tilkall í helming af söluandvirði fasteignarinnar að frádregnum áhvílandi veðskuldum. Nokkrum árum seinna seldi konanfasteignina og flutti í annað sveitarfélag meðan börnin voru enn í grunnskóla. Í kjölfarið krafði maðurinn konuna um greiðslu helmings af söluandvirði fasteignarinnar að frádregnum áhvílandi veðskuldum. Konan hafnaði greiðslu og taldi að maðurinn hefði í raun gefið þetta eftir fyrir fjölskylduna. Hún hefði verið í góðri trú um að hann myndi ekki gera kröfu í söluandvirðið síðar. Konan hélt því líka fram að hún hefði verið í miklu andlegu ójafnvægi við skilnaðinn sem olli því að samningurinn var bersýnilega ósanngjarn fyrir hana. Taldi konan einnig að samningurinn skerti frelsi hennar til að velja sér búsetu. Samningurinn var engu að síður talinn gildur fyrir dómi og konunni gert að greiða manninum helminginn af söluandvirði eignarinnar að frádregnum veðskuldum. Þetta dæmi sýnir mikilvægi þess að fólki njóti faglegrar ráðgjafar við skilnað og fjárslit. Margir ganga í gegnum skilnað og vilja gera það í góðu eða telja sig geta klárað málin í sátt með fyrrverandi maka. Fólk fær ákveðnar leiðbeiningar frá sýslumanni við skilnað og fjárslit en hlutverk sýslumanns markast af því að gæta að almennum skilyrðum laga og málsmeðferðar. Þegar kemur að einstaklingsbundinni ráðgjöf þá er alltaf betra fá viðeigandi faglega ráðgjöf. Sævar Þór Jónsson - Hæstaréttarlögmaður
19 Sep, 2024
Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá manni sem spyr út í trygg­ingu 13 ára ung­lings á raf­skutlu. Sæll Sæv­ar Er það rétt að ef 13 ára ung­ling­ur á óskráðri og ótryggðri raf­skutlu kem­ur á fullri ferð út af göngu­stíg, þver­ar yfir göt­una og lend­ir á hlið bíls sem kem­ur eft­ir göt­unni, þá sé tjónið alltaf öku­manns bíls­ins. Ekki sé hægt að krefjast að heim­il­is­trygg­ing for­eldra barns­ins greiði tjónið því það raf­hjólið er ótryggt og barnið orðið 10 ára. Kveðja, Jón Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður rek­ur lög­manns­stof­una Sæv­ar Þór & Partners. Sæll Jón.  Í um­ferðarlög­um og stjórn­valds­fyr­ir­mæl­um, sem sett eru sam­kvæmt þeim, er að finna hátt­ern­is­regl­ur fyr­ir alla þá sem ferðast í um­ferðinni. Þar er að finna sér­stak­ar regl­ur fyr­ir gang­andi veg­far­end­ur, hjól­reiðafólk, öku­menn bif­reiða, bif­hjóla, léttra bif­hjóla, tor­færu­tækja o.fl. Í c-lið 30. töluliðar 1. mgr. 3. gr. um­ferðarlaga nr. 77/​2019 eru raf­magns­hlaupa­hjól skil­greind sem reiðhjól eða flokk­ur reiðhjóla. Slík­um tækj­um er óheim­ilt að aka á ak­braut. Í um­ferðarlög­um er kveðið á um lög­mælta hátt­semi aðila sem hyggst þvera ak­braut en þá skal hann gæta þess að hjóla eigi hraðar en sem nem­ur venju­leg­um göngu­hraða. Í þeirri at­b­urðarás sem þú lýs­ir má telja senni­legt að um­rædd þver­un hafi verið í and­stöðu við fram­an­greinda hátt­ern­is­reglu. Eng­in vá­trygg­ing­ar­skylda er á þess­um hjól­um. Tjónþoli get­ur átt rétt á bót­um eft­ir al­menn­um skaðabóta­regl­um eða eft­ir at­vik­um úr ábyrgðartrygg­ingu gagnaðila, svo að dæmi séu nefnd. Í heim­il­is­trygg­ing­um trygg­inga­fé­laga felst al­mennt ábyrgðartrygg­ing en hún vá­trygg­ir heim­il­is­menn fyr­ir þeirri skaðabóta­skyldu sem þeir geta bakað sér sam­kvæmt ís­lensk­um lög­um sem ein­stak­ling­ar. Telja má lík­legt að sú hátt­semi aðilans á raf­skút­unni sem lýst er í spurn­ingu þinni sé skaðabóta­skyld. Í þínu dæmi er ekki til­greint ná­kvæm­lega hvers kon­ar trygg­ing er fyr­ir hendi varðandi öku­tækið. Hins veg­ar, ef um­rætt öku­tæki er kaskó­tryggt, væri eðli­leg­ast að til­kynna viðkom­andi trygg­inga­fé­lagi tjónið og lýsa kröfu vegna sjálfs­áhættu í ábyrgðartrygg­ingu (heim­il­is­trygg­ingu) þess aðila sem varð vald­ur að tjón­inu. Kær kveðja, Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður/​MBA
19 Sep, 2024
Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá manni sem skil­ur ekki svar við spurn­ing­unni. Sæll. Ég skil ekki al­veg svarið við spurn­ing­unni - því það er á laga­máli en ekki ís­lensku. Hvað er lífs­gjöf og hvað er gjörn­ing­ur? Og má þá gefa hversu mikið sem er fyr­ir and­lát? Greiða þeir sem þiggja gjöf­ina skatta af henni? Er skatta­lega hag­stæðara að fá gjöf fyr­ir and­lát en að erfa sömu upp­hæð? Kveðja, Gerður Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður rek­ur lög­manns­stof­una Sæv­ar Þór & Partners. Sæl Gerður. Gjörn­ing­ur er lög­gern­ing­ur eða eins og það er skil­greint í lög­fræðinni, vilja­yf­ir­lýs­ing sem ætlað er að stofna rétt, breyta rétti eða fella niður rétt. Dæmi um lög­gern­inga eru samn­ing­ar hvers kon­ar, erfðaskrár og af­söl. Lífs­gjöf er gjöf, gef­in í lif­anda lífi, sem á að koma til fram­kvæmda meðan gef­and­inn er lif­andi, ólíkt dán­ar­gjöf sem er lof­orð um gjöf sem ætlað er að koma til fram­kvæmda eft­ir and­lát gef­and­ans. Af dán­ar­gjöf­um er greidd­ur erfðafjárskatt­ur. Lífs­gjaf­ir eru al­mennt skatt­skyld­ar sem tekj­ur en þó eru tæki­færis­gjaf­ir und­an­skyld­ar svo lengi sem verðmæti þeirra er ekki meira en al­mennt ger­ist um slík­ar gjaf­ir. Eng­ar tak­mark­an­ir eru í lög­um um lífs­gjaf­ir og um­fang þeirra og því hafa menn frjáls­ar hend­ur í þeim efn­um. Kær kveðja, Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður/​MBA
19 Sep, 2024
Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður/​MBA svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hann spurn­ingu frá manni sem spyr út í pen­inga­gjaf­ir. Sæll! Kær vin­ur sem bú­sett­ur er í USA vill styrkja ís­lensk­an vin sinn með pen­inga­upp­hæð. Þessi ís­lenski vin­ur er ör­yrki. Hver er há­marks­upp­hæð til milli­færslu án þess að borga þurfi skatt af styrkn­um? Með kveðju, N Sæv­ar Þór Jóns­son lögmaður rek­ur lög­manns­stof­una Sæv­ar Þór & Partners. Sæll. Meg­in­regl­an er að all­ir styrk­ir til ein­stak­linga telj­ast til skatt­skyldra tekna þeirra og í því skipt­ir ekki máli hvaðan styrk­ur­inn er kom­inn. Styrk­ir eru skattlagðir eins og launa­tekj­ur og bera tekju­skatt og út­svar, sam­kvæmt A-lið 7. gr. laga um tekju­skatt, nr. 90/​2003. Per­sónu­leg­ur kostnaður leyf­ist ekki til frá­drátt­ar. Ef litið er á styrk­inn sem gjöf, er meg­in­regl­an sú að gjöf flokk­ast jafn­framt sem skatt­skyld­ar tekj­ur og ber tekju­skatt og út­svar, sam­kvæmt A-lið 7. gr. laga um tekju­skatt, nr. 90/​2003. Frá því er þó und­an­tekn­ing sem nær til verðlít­illa tæki­færis­gjafa. Ekki er ljóst hver mörk­in eru en ætla má að um sé að ræða verðmæti sem al­ mennt ger­ist um slík­ar gjaf­ir. Að fram­an­greindu sögðu, skipt­ir ekki máli hvort pen­inga­fjár­hæðin sem til stend­ur að milli­færa sé kölluð styrk­ur eða gjöf, af henni ber að greiða skatta, ís­lensk­um lög­um sam­kvæmt. Frá þessu er þó að finna nokkr­ar und­an­tekn­ing­ar, þ.á m. er varða söfn­un­ar­fé og styrki vegna veik­inda eða slysa. Það er háð því skil­yrði að fjár­mun­irn­ir gangi beint til þeirra sem safnað er fyr­ir. Hvað varðar fyr­ir­spurn þína kem­ur ekki fram hvort um sé að ræða einn styrk eða fleiri. Séu greiðslurn­ar reglu­bundn­ar eru ákveðnar lík­ur á því að skattyf­ir­völd skoði þær frek­ar sem skatt­skyld­ar tekj­ur en styrk. Þá skipt­ir ekki máli hver upp­hæð fjár­styrks­ins er, annaðhvort verður að greiða skatt af allri fjár­hæðinni eða ekki. Hvort styrk­ur þessi falli und­ir und­an­tekn­ingu þessa eða ekki, er erfitt að segja til um. Það fer eft­ir því hvernig skattyf­ir­völd túlka þetta orðalag. Til þess að vera al­veg viss í ykk­ar gjörðum væri viss­ast að senda fyr­ir­spurn á skattyf­ir­völd og spyrja nán­ar út í þetta. Þess má geta að þegar er­lend­ar milli­færsl­ur eru fram­kvæmd­ar þarf að greiða gjald sam­kvæmt gjald­skrá viðskipta­banka viðkom­andi. Þrátt fyr­ir að gjald­eyr­is­höft­um hafi nán­ast verið aflétt, ber bönk­um að til­kynna um til­tek­in er­lend viðskipti og milli­færsl­ur til Seðlabanka Íslands. Get­ur bank­inn jafn­framt kallað eft­ir frek­ari upp­lýs­ing­um varðandi milli­færsl­una, sé þess þörf. Gangi ykk­ur vel, Sæv­ar Þór Jóns­son, lögmaður/​MBA.