fbpx

Launamaður eða verktaki

Nú á dögunum féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness í máli þar sem deilt var um hvort maður nokkur væri launþegi eða verktaki í vinnu hjá tilteknu fyrirtæki.

Atvik málsins voru í grófum dráttum þau að maðurinn hafi starfaði fyrir ferðaþjónustufyrirtæki en skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður. Maðurinn skilaði reglulega inn yfirliti yfir unna tíma sem fyrirtækið greiddi eftir en greiðslur voru ekki reglulegar og komu ekki af reikningum félagsins heldur persónulegum reikningi fyrirsvarsmanns þess og af reikningi annars félags í eigu maka fyrirsvarsmannsins. Maðurinn gaf ekki út neina reikninga en félagið gaf heldur ekki út launaseðla og stóð ekki skil á launatengdum gjöldum eða staðgreiðslu. Maðurinn gaf greiðslurnar upp sem laun á framtali sínu. Við starfslok hafði manninum verið gefin meðmæli.

Fyrir dómi deildu aðilar hvort maðurinn hefði starfað sem launþegi eða verktaki. Óumdeilt var að maðurinn hafði starfað fyrir ferðaþjónustufyrirtækið um tíma. í forsendum héraðsdóms var litið til þess að maðurinn sendi félaginu reglulega tímaskráningar fyrir unnar klukkustundir fyrir hvern mánuð auk þess sem hann gaf upp hjá skattyfirvöldum innborganir sem hann fékk vegna starfanna. Hvergi kom fram á tímaskýrslum né í samskiptum aðila í tölvupósti og netspjalli að virðisaukaskattur ætti að leggjast ofan á ógreiddar vinnustundir líkt og um verktakavinnu væri að ræða. Einnig var litið til meðmæla sem maðurinn fékk frá félaginu. Þá vísaði héraðsdómur til þess að samkvæmt kjarasamningi, sem maðurinn byggði á í málinu, hvíldi skylda á vinnuveitanda til þess að gera skriflegan ráðningarsamning við starfsmann og því ætti ferðaþjónustufyrirtækið ábyrgð á því að slíkur samningur var ekki gerður.

Enn fremur var í forsendum vísað til þess að í réttarsambandi aðila í vinnurétti væri meginreglan sú að um launþegasamband væri að ræða en undanþága frá því væri verktaka. Megininntak verktöku væri að unnið sé ákveðið verk, verkið sé aukastarf, verktaki útvegi tæki og tól og verktakinn sé sjálfstæður í sínum störfum. Í málinu hafði maðurinn ekki sinnt öðru starfi, í einhverju tilvika lagði hann sitt snjóruðningstæki til við snjómokstur en að öðru leyti lagði félagið fram öll tæki sem sneru að starfseminni. Þá var vinnutími mannsins að miklu leyti bundinn af bókunum viðskiptavina félagsins en þær voru á ábyrgð félagsins. Taldi dómurinn af þessu leiða að ekki væri um verktakasamning að ræða heldur launþegasamband og var fallist á kröfur mannsins í málinu.

Nýlegar færslur