fbpx

Tilkynningar um galla

Tilkynning um galla í fasteign
Kaupandi fasteignar uppgötvar oftast ekki galla á fasteigninni, aðra en þá sem upplýst hefur verið um áður en kaup tókust, fyrr en eftir afhendingu eignarinnar. Þá hvílir sú skylda á kaupandanum að kanna eignina gaumgæfilega. Séu gallar á fasteigninni sem kaupandi verður þá fyrst var við ber honum að tilkynna seljanda um gallana tafarlaust. Kaupandinn hefur lítið sem ekkert svigrúm til þess að senda slíka tilkynningu enda allar tafir á því metnar honum í óhag. Líði of langur tími áður en kaupandi sendir tilkynninguna kann það að vera metið sem tómlæti af hans hendi sem getur leitt til þess að bótaréttur hans falli niður.

Á hinn bóginn er heldur ekki sanngjarnt að kaupandi hafi ótakmarkaðan tíma til þess að kynna sér eignina nægilega og hafa uppi kröfu um bætur. Seljandinn á ekki að þurfa að eiga hættu á því að gerð sé bótakrafa á hendur honum í mörg ár eftir að fasteignaviðskiptunum lýkur. Af þeim sökum hefur löggjafinn sett hámark á þann tíma sem hægt er að senda tilkynningu um galla og er það fimm ár, skv. 2. mgr. 48. gr. laga um fasteignakaup.

Þetta þýðir ekki að kaupandi hafi fimm ára svigrúm til þess að senda tilkynningu um galla til seljanda. Þvert á móti ber kaupanda að tilkynna seljanda um galla innan sanngjarns frests eins og það er orðað í lögunum. Af orðlaginu má ráða að lengd tímafrestsins ræðst af ákveðnu sanngirnismati. Almennt má þó ætla að kaupandi verði að tilkynna tafarlaust og hefur ekki mikið svigrúm, nema sanngirnis ástæður réttlæti tafir.

Nýlegar færslur