fbpx

Óskipt bú

Rétturinn til setu í óskiptu búi getur eingöngu stofnast í hjúskap en ekki sambúð. Eftir andlát skammlífari makans getur sá langlífari sótt um svokallað búsetuleyfi hjá sýslumanni og öðlast þá ráðstöfunar rétt yfir öllum eignum hins óskipta bús svo sem þær væru hans eignir. Þegar hjón eiga sameiginlega niðja þá á langlífari makinn rétt á setu í óskiptu búi og þarf ekki samþykki barnanna, sbr. 7. gr. erfðalaga nr. 8/1962. 

Annað er uppi á teningnum þegar hjón eiga börn úr fyrri samböndum. Í þeim tilvikum kveður ákvæði 8. gr. erfðalaga á um að stjúpbörn þurfi að veita samþykki sitt fyrir setu hins langlífari í óskipta búinu. Hægt er að mæla svo fyrir um með erfðaskrá að sá sem lengur lifir fái að sitja í óskiptu búi án þess að afla samþykki stjúpniðja, skv. 3. mgr. 8. gr. erfðalaga. 

Þegar engum niðjum er til að dreifa og langlífari makinn er eini erfinginn þá ber að skipta dánarbúinu og seta í óskiptu búi kemur ekki til greina. Þá fær langlífari maki heldur ekki leyfi til setu í óskiptu búi ef bú hans er í gjaldþrotaskiptum, í ljós kemur að eignir þess hrökkva ekki fyrir skuldum eða viðkomandi verði ekki treyst til að hafa forræði bús vegna vanhirðu um fjármál sín. Ekki liggur ljóst fyrir hvað felst í slíkri vanhirðu en það er að öllum líkindum háð atvikabundnu mati hverju sinni.

Nýlegar færslur