fbpx

Söluhagnaður sumarhúsa

Söluhagnaður af íbúðarhúsnæði er almennt skattfrjáls hjá einstaklingum sé hann utan atvinnurekstrar. Það á hins vegar ekki við um aðrar fasteignir. Með nýlegri lagabreytingu var ákveðið að gera söluhagnað sumarhúsa einnig skattfrjálsan að tilteknum skilyrðu uppfylltum.

Breytingin tók gildi vegna tekna ársins 2020 og heimilar að hagnaður af sölu frístundahúsnæðis eða sumarbústaðar sé skattfrjáls. Þær hömlur eru á að heildarrúmmál viðkomandi eignar og íbúðarhúsnæðis viðkomandi skattaðila fari ekki fram úr 600 rúmmetrum hjá einstaklingi eða 1.200 rúmmetrum hjá hjónum og eignarhald viðkomandi hafi varað hið skemmst 7 ár. Einnig er það skilyrði sett að húsnæðið hafi verið nýtt til einkanota af eigendum en ekki verið leigt út gegn endurgjaldi.

Tekjuskattur er borgaður af hagnaði við sölu fasteigna, annarra en íbúðarhúsnæðis en það fer eftir 15. grein laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Söluhagnaður er mismunur á söluverði eignar og stofnverði. Stofnverð eignar er byggingarkostnaður í upphafi eða kaupverð hennar. Í 3. málsgrein 15. greinar er þó að finna undantekningu á því, þar sem segir að einstaklingum sé jafnframt heimilt að telja helming söluverðs til skattskyldra eigna í stað söluhagnaðar. Það getur reynst fólki vel í sumum tilvikum.

Þessi breyting mun nýtast mörgun en e.t.v. koma sér best fyrir eldri borgara sem hafa að jafnaði átt sumarhús sín lengur en þeir sem yngri eru. Þá hefur skattlagning söluhagnaðar sumarhúsa komið illa niður á tekjum ellilífeyrisþega og haft neiðkvæð áhrif á lífeyrisgreiðslur þeirra. Það fer því eftir því hvaðan lífeyrisgreiðslurnar koma en fjármagnstekjur hafa áhrif á réttindi hjá tryggingastofnun.

Nýlegar færslur