fbpx

Riftun kaupsamnings

Í ágúst 2019 féll áhugaverður dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur um riftun kaupsamnings um fasteign. Nánar tiltekið varðaði málið íbúð í fjörutíu ára gömlu fjöleignarhúsi. Búið var að undirrita kaupsamning og greiða fyrstu greiðslu skv. honum sem nam 14% af heildar söluverði en eftirstöðvar kaupverðsins átti að greiða við afhendingu. Fyrirvari var í kaupsamningi um að uppgjör vegna yfirstandandi framkvæmda skyldi liggja fyrir við afhendingu eignarinnar. Þegar að afhendingardegi kom lá uppgjörið ekki fyrir og tafðist þá afhending eignarinnar og greiðsla kaupverðsins. Þegar uppgjörið lá loks fyrir, tveimur og hálfum mánuði seinna, kröfðust kaupendur afsláttar af kaupverði þar sem þau töldu ástand eignarinnar verra en þeim hafi verið gert kunnugt og báru fyrir sig ástandsskoðun sem framkvæmd hafði verið sjö árum áður. Þar sem ekki náðist saman milli aðila fór svo að seljandi lýsti yfir riftun. Í kjölfarið greiddu kaupendur eftirstöðvar kaupverðs að frádegnum 2.000.000 kr.

Fyrir dómi kröfðust kaupendur afhendingar eignarinnar og viðurkenningar á skaðabótum vegna galla en seljandi krafðist viðurkenningar á riftun og skaðabóta vegna kostnaðar sem hún hafði orðið fyrir. Dómurinn féllst ekki á að  fasteignin væri gölluð í skilning fasteignakaupalaga og kaupendum því óheimilt að beita stöðvunarrétti vegna réttar til skaðabóta eða afsláttar. Seljandi hafi veitt kaupendum allar upplýsingar um ákvarðanir húsfélags um fyrirhugaðar framkvæmdir, þ.m.t. úttekt framkvæmdaraðila á ytra byrði hússins sem byggt var á en ekki eldri úttekt annars aðila, sem galla krafa kaupenda grundvallaðist á. Þá höfðu kaupendur ekki sinnt skoðunarskyldu sinni hvað varðar skoðun á ytra byrði hússins en það hafi þeim borið að gera í ljósi aldurs þess og þeirra upplýsinga sem þau höfðu fengið um yfirstandandi framkvæmdir. Ekki var fallist á að hinn meinti galli myndi rýra verðmæti eignarinnar svo nokkru varði, þvert á móti fengju kaupendur nýtt fyrir gamalt með viðgerðinni á ytra byrðinu. Var því kröfum kaupenda hafnað.

Við úrlausn viðurkenningarkröfu seljanda um riftun komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að þriggja vikna greiðsludráttur af hálfu kaupenda og hátt hlutfall þess kaupverðs sem vangreitt var, eða 86%, sé veruleg vanefnd í skilningi laga um fasteignakaup. Að teknu tilliti til þess að eignin var ekki göllu, seljandi hafði ítekað óskað eftir greiðslum, sett lokafrest á greiðslu og sent kaupendum viðvörun um riftun áður en riftunaryfirlýsing var send, var riftun staðfest. Ekki var fallist á vörn um að riftun væri kaupendum þungbær enda hafði eignin ekki verið afhent og kaupendur ekki tekið lán sem nyti veðréttar sem þyrfti að aflýsa. Að auki höfðu kaupendur í hyggju að leigja íbúðinu út. Kaupin gengu því til baka og seljandi fékk bæði bætur vegna kostnaðar vegna sölulauna fasteignasala 789.880 kr og málskostnað að fjárhæð 2.500.000 kr. Sævar Þór Jónsson lögmaður hjá Lögmannstofunni SÆVAR ÞÓR & PARTNERS fór með málið fyrir hönd seljanda. Dóminn má lesa í heild sinni hér.

Nýlegar færslur